Ársskýrsla 2012 – 2013


Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga 2012-2013

Á síðasta aðalfundi, 19. maí 2012, urðu nokkrar breytingar í stjórn félagsins sem var þannig skipuð starfsárið 2012-2013:

Eggert Ólafsson, formaður

Gestur Páll Reynisson, félagaskrárritari

Guðbjörn Guðbjörnsson, gjaldkeri

Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, ritari

Rósa Guðrún Berþórsdóttir, varaformaður

Varamenn voru Elvar Örn Arason og Sveinbjörg Pálsdóttir.

Endurskoðendur reikninga voru Kristinn Valdimarsson og Margrét S. Björnsdóttir.

Stjórnarfundir

Stjórnin hélt samtals 13 fundi á starfsárinu, þar af einn lengri stefnumótunarfund í september. Allir fundir voru bókaðir og voru fundargerðir birtar jafnóðum á vef félagsins eins og árið áður.

Viðburðir

Þann 18. október 2012 stóð félagið, ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og í samtarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Evrópustofu, fyrir fjölmennu málþingi um áhrif ESB á íslenska stjórnsýslu. Erlendur fyrirlesari, Dr. Anamarija Musa frá lagadeild Háskólans í Zagreb í Króatíu, var fengin til landsins af þessu tilefni. Þá voru fimm íslenskir frummælendur: Dr. Baldur Þórhallsson prófessor hjá HÍ, Eiríkur B. Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Stefán Haukur Jóhannesson formaður samninganefndar Íslands. Ávarp flutti Eggert Ólafsson, formaður félagsins og fundarstjóri var Svavar Halldórsson stjórnsýslufræðingur og fréttamaður. Málþingið var sögulegt þar sem þetta var stærsti viðburður sem félagið hefur staðið fyrir. Um 80 manns sóttu þingið. Ásta Möller og Elvar Örn Arason áttu stærstan þátt í að undirbúa málþingið en aðrir stjórnarmenn lögðu líka hönd á plóg.

Nýtt merki og vefur

Stjórn félagsins ákvað að fá grafískan hönnuð, Soffíu Árnadóttur, til þess að búa til nýtt lógó eða myndmerki fyrir félagið. Heimasíðan, sem hér má sjá, hefur nú verið uppfærð til samræmis og verður nýja lógóið notað til þess að auðkenna félagið eins og við á.

Eitt af áherslumálum stjórnar hefur verið að viðhalda og bæta við upplýsingum um félagið á vef þess, stjornsysla.is. Þar má sjá flestar heimildir um sögu félagsins, m.a. allar ársskýrslur frá stofnun þess árið 2006, allar fundargerðir stjórnar sl. tvö ár, gildandi lög félagsins, uppfært félagatal og uppfærðar upplýsingar um stjórn o.fl.

Samstarf við önnur félög

Auk fyrrnefnds samstarfs í tengslum við málþingið átti félagið gott samstarf við Endurmenntun HÍ þar sem boðið var upp á nokkur vel valin námskeið með sérstökum afslætti fyrir félagsmenn. Þetta var gert í framhaldi af að könnun á símenntunaróskum félagsmanna sem var gerð í mars 2012. Ný könnun er í vinnslu þessa dagana. Rósa varaformaður hefur verið fulltrúi félagsins í samstarfi við Endurmenntun.

Ritnefnd

Í janúar sl. ákvað stjórnin að setja á fót ritnefnd félagsins sem skyldi m.a. gefa út rafrænt fréttabréf. Kannað var meðal félagsmanna hvort áhugi væri fyrir því að starfa í ritnefnd, en enginn bauð sig fram. Þeir Gestur Páll og Elvar Örn mynda ritstjórn félagsins sem vinnur að því að gefa út fréttabréf. Áhugasamir félagsmenn eru velkomnir í ritnefndina.

Félagsmenn

Á síðasta starfsári (maí 2011-2012) greiddu 107 félagsmenn árgjald, en á nýliðnu starfsári (maí 2012-2013) greiddu 103 félagsmenn árgjald. Samkvæmt þessu hefur greiðandi félagsmönnum fækkað úr 107 í 103 eða um 4 á milli ára. Samkvæmt félagatali á vef félagsins eru félagsmenn aftur á móti 121 talsins, á móti 115 í fyrra, og hefur því fjölgað um 6 á starfsárinu.

Breytingar á lögum félagsins

Stjórnin leggur á þessum aðalfundi til eina breytingu á lögum félagsins eins og fram kom í fundarboðum og verður farið yfir það hér á eftir.

Lokaorð

Ég hef setið í stjórn félagsins frá árinu 2008, eða í 5 ár, og þar af sem formaður tvö síðustu árin. Það hefur verið mjög ánægjulegt að kynnast því góða fólki sem setið hefur með mér í stjórninni og að takast á við þau viðfangsefni sem stjórnarsetan hefur kallað á. Meðal helstu afreka stjórnar undanfarin ár eru nokkrir eftirminnilegir fundir, t.d. um áhrif væntanlegra stjórnarskrárbreytinga á stjórnsýsluna vorið 2012 og málþingið um áhrif aðildarviðræðnanna við ESB á stjórnsýsluna sl. haust. Þá má nefna aukna notkun á heimasíðu félagsins þar sem nú má rekja sögu þess eins og hún er skráð í ársskýrslum og fundargerðum, uppfært félagatal, nýtt lén og nú síðast nýtt merki félagsins og uppfært útlit heimasíðunnar.

Eins og sjá má af þessari ársskýrslu hefur stjórn félagsins ekki setið auðum höndum. Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu og vil ég nota tækifærið og þakka stjórnarmönnum og varamönnum fyrir mikið og gott samstarf á nýloknu starfsári, sem verður mitt síðasta sem formaður þessa ágæta félags.

Ég óska nýrri stjórn og félaginu velfarnaðar og veit að því mun farnast vel.

Flutt á aðalfundi félagsins, 30. maí 2013

Eggert Ólafsson, formaður