Ársskýrsla 2011 – 2012

Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga 2011-2012

Á síðasta aðalfundi, 12. maí 2011, urðu nokkrar breytingar í stjórn félagsins sem var þannig skipuð starfsárið 2011-2012:

Eggert Ólafsson, formaður

Gestur Páll Reynisson, félagaskrárritari

Guðbjörn Guðbjörnsson, gjaldkeri

Rósa Guðrún Berþórsdóttir, ritari

Sigurlaug Þorsteinsdóttir, varaformaður

 

Varamenn voru Gissur Pétursson og Sveinbjörg Pálsdóttir.

 

Stjórnarfundir

Stjórnin var mjög virk og hélt samtals 15 fundi, þar af einn lengri stefnumótunarfund í október. Strax í upphafi ákvað stjórnin að bóka alla fundi og að birta fundargerðir jafnóðum á vef félagsins og það gekk eftir.

 

Viðburðir

Félagið stóð fyrir nokkrum viðburðum á starfsárinu. Í september gekk félagið til samstarfs við Dokkuna og í framhaldi af því var efnt til þriggja sameiginlegra funda.

 

Þann 26. apríl (2012) stóð félagið, í samstarfi með Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála , fyrir opnum fundi í Odda um áhrif tillagna stjórnlagaráðs á stjórnskipan og stjórnsýslu . Um 35 manns sóttu fundinn.

 

Samstarf við önnur félög

Auk fyrrnefnds samstarfs við Dokkuna og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, skrifaði félagið undir samstarfssamning við Endurmenntun og í framhaldi af honum stóðu félögin sameiginlega að könnun á símenntunaróskum félagsmanna . 35 félagsmenn tóku þátt og áhuginn reyndist mestur á breytingastjórnun, gæðastjórnun, stefnumótun og stefnugreining, leiðtogafræði, árangursstjórnun, verkefnastjórnun og samningatækni.

 

Vefur, lén og grein

Eitt af áherslumálum stjórnar var að bæta upplýsingar á vef félagsins ásamt því að gera félagið sýnilegra á Facebook og víðar. Til þess að stuðla að þessu keypti félagið

lénið stjornsysla.is (og stórnsýsla.is) og var það stærsta fjárfesting félagsins á starfsárinu. Þá hefur félagatalið verið birt á vef félagsins, allar ársskýrslur frá stofnun félagsins, árið 2006 og ein grein um stjórnsýslufræði auk þess sem allar upplýsingar um félagið voru yfirfarnar og nokkur ný netföng (@stjornsysla.is) tekin í notkun og upplýsingar um þau birtar á vefnum. Auk þessa er félagið komið með fast Póstfang sem birt er á heimasíðunni ásamt kennitölu o.fl.

 

Félagsmenn

Annað markmið stjórnar var að fjölga félagsmönnum. Á síðasta starfsári (maí 2010-2011) greiddi 91 félagsmaður árgjald, en á yfirstandandi starfsári (maí 2011-2012) greiddu 107 félagsmenn árgjald vegna þess starfsárs og auk þess 6 árgjöld vegna fyrra starfsárs. Samkvæmt þessu hefur greiðandi félagsmönnum fjölgað úr 97 í 107 á milli ára. Samkvæmt félagatali á vef félagsins eru félagsmenn aftur á móti 115 talsins í lok yfirstandandi starfsárs.

 

Umsögn um þingsályktunartillögu

Eitt af því sem kom fram á stefnumótunarfundi stjórnar í október var áhugi á því að eitt hlutverk félagsins mætti vera að stuðla að faglegri stjórnsýslu hér á landi. Í framhaldi af þessu ákvað stjórnin að óska eftir því við Alþingi að fá til umsagnar frumvörp og þingsályktunartillögur sem snertu stjórnsýsluna. Stjórnin lagði í apríl fram eina slíka umsögn um tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar til að skoða starfshætti þriggja ráðuneyta og Seðlabanka Íslands.

 

Breytingar á lögum félagsins

Stjórnin leggur á þessum aðalfundi til nokkrar breytingar á lögum félagsins eins og fram kom í fundarboðum og verður farið yfir þær hér á eftir.

 

Lokaorð

Eins og sjá má af þessari ársskýrslu hefur stjórn félagsins ekki setið auðum höndum heldur látið hendur standa fram úr ermum. Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu og því nota ég tækifærið og þakka stjórnarmönnum og varamönnum fyrir mikið og gott samstarf á starfsárinu sem nú er að ljúka.

 

Flutt á aðalfundi félagsins, 29. maí 2012

Eggert Ólafsson, formaður