Ársskýrsla 2014 – 2015

Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga starfsárið 2014-2015.

Stjórn

Á síðasta aðalfundi 22. maí 2014 urðu nokkrar breytingar á stjórn félagsins sem var þannig skipuð starfsárið 2014-2015:

Elvar Örn Arason, formaður

Bergný Sævarsdóttir, ritari

Dóra Magnúsdóttir, vefstjóri

Gestur Páll Reynisson, varaformaður og gjaldkeri

Guðbjörn Guðbjörnsson, félagaskrárritari

Varamenn voru Daldís Ýr Guðmundsdóttir og Rósa Guðrún Bergþórsdóttir

Endurskoðendur reikninga voru Kristinn Valdimarsson og Margrét S. Björnsdóttir.

Stjórnarfundir

Stjórnin hélt samtals 10 fundi á starfsárinu, þar af einn lengri stefnumótunarfund í september. Allir fundir voru bókaðir og voru fundargerðir birtar jafnóðum á vef félagsins eins og áður.

Viðburðir

Á þessu starfsári héldum við eingöngu einn hádegisfund. Fundurinn fór fram í byrjun nóvember 2014, þar sem við ræddum lærdóminn af lekamálinu í innanríkisráðuneytinu. Á fundinum flutti Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir fræðilegt erindi um lekamálið og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fjölluðu um málið út frá sjónarhóli stjórnmálanna. Þetta var afar vel heppnaður fundur í alla staði. Spegillinn var með góða umfjöllun um fund Félags stjórnsýslufræðinga um lekamálið í innanríkisráðuneytinu

Á þessu starfsári héldum við ekki fund eftir áramót.

Umsagnir til Alþingis

Í mars sl. sendi stjórn Félags stjórnsýslufræðinga frá sér umsögn vegna frumvarps til laga um breytingu á Stjórnarráði Íslands. Í umsögninni lagðist félagið gegn því að endurvekja almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnanna sem undir hann heyra.

Upplýsingagjöf og samskipti við félagsmenn

Á umliðnu starfsári sendum við út tvö fréttabréf til félagsmanna þar sem við kynntum það helsta sem var á baugi hjá félaginu.

Samstarf við önnur félög

Auk samstarf við félög í tengslum við fundi og málþing hefur Félag stjórnsýslufræðinga átt gott samstarf við Endurmenntun HÍ undanfarin ár. Samstarfssamningur við stofnunina var endurnýjaður í byrjun árs en samstarfið felur meðal annars í sér afslátt til félagsmanna af tilteknum námskeiðum.

Félagið átti í viðræðum við félag stjórnmálafræðinga um samstarf. Á næsta starfsári stefna félögin að því að halda sameiginlega fundi og rætt hefur verið um aðkomu félagsins að ráðstefnu á sviði stjórnmála- og stjórnsýslufræða. Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem er efst á baugi í rannsóknum á sviði þessum fræðasviðum.

Næsta haust verður fyrsti sameiginlegi fundur félagana haldinn sem fjalla mun um pólitíska spillingu í stjórnsýslunni og í stjórnmálum. Fundurinn verður kynntur betur síðar.

Félagsmenn

Innheimta félagsgjalda gengur vel. Ríflega 100 félagsmenn greiddu árgjaldið.  Félagsmenn hefur fjölgað jafnt og þétt á umliðnum árum en samkvæmt félagatali á vef félagsins eru félagsmenn nú 130 talsins.

Breytingar á lögum félagsins

Stjórnin leggur ekki til breytingar á lögum félagsins á aðalfundi félagsins í maí 2014.

Afmælisár 

Á næsta ári eru tíu ár frá því að félagið var stofnað. Það væri gaman að gera eitthvað skemmtilegt á afmælisárinu. Rósa kom með þá hugmynd að setja á laggirnar sérstaka afmælisnefnd í tilefni af afmælinu. Mig langar að leggja það fyrir fundinn að stofnuð verði nefnd sem hefði það hlutverk að skipuleggja viðburð eða viðburði á afmælisárinu.

Lokaorð

Eins og þessi yfirferð ber með sér þá höfum við haldið áfram á fyrri braut og unnið vasklega að umbótum.  Innra starfs félagsins hefur verið eflt og áhersla lögð á að taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni sem lúta að því að bæta stjórnskipun og stjórnsýslu í landinu. Sjálfur hef ég lagt áherslu á að efla samstarf félagsins við önnur sambærileg félög og efla tengsl við nemendur og félagsmenn.

Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu og því nota ég tækifærið og þakka stjórnarmönnum og varamönnum fyrir mikið og gott samstarf á starfsárinu sem nú er að ljúka.

Flutt á aðalfundi félagsins 14. maí 2015

Elvar Örn Arason, formaður.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *