Árskýrsla 2015-2016

Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga starfsárið 2015-2016.

Stjórn

Á síðasta aðalfundi 22. maí 2014 urðu nokkrar breytingar á stjórn félagsins sem var þannig skipuð starfsárið 2014-2015:

Elvar Örn Arason, formaður

Bergný Sævarsdóttir, ritari

Dóra Magnúsdóttir, vefstjóri

Gestur Páll Reynisson, varaformaður og gjaldkeri

Guðbjörn Guðbjörnsson, félagaskrárritari

Varamenn voru Daldís Ýr Guðmundsdóttir og Rósa Guðrún Bergþórsdóttir

Endurskoðendur reikninga voru Kristinn Valdimarsson og Margrét S. Björnsdóttir.

Stjórnarfundir

Stjórnin hélt samtals 8 fundi á starfsárinu, þar af einn lengri stefnumótunarfund í september. Allir fundir voru bókaðir og voru fundargerðir birtar jafnóðum á vef félagsins eins og áður.

Viðburðir

Á þessu starfsári hélt félagið tvo hádegisfund. Fyrri fundurinn fór fram í október og fjallaði um starfsmannamál opinberra starfsmanna. Á fundinum ræddi Vigdís Hauksdóttir, þingmaður og formaður fjárlaganefndar þingályktunartillögu um sem hún og Guðlaugur Þór komu fram með sem fól í sér að auðvelda uppsagnir opinberra starfsmanna. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, lýsti afstöðu BHM til tillögunnar. Þetta var afar vel sóttur fundur og fullt út úr dyrum á KEX hosteli.

Seinni fundurinn var haldinn í samstarfi við félag stjórnmálamanna og fjallaði um spillingu í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi. Framsögumenn eru Ásgeir Brynjar Torfason rekstrarhagfræðingur, Jón Ólafsson heimsspekingur og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans stýrir umræðum. Þetta var afar vel heppnaður fundur í alla staði. Og skemmtilegt að halda fundi um efni sem hafa þýðingu fyrir þjóðfélagsumræðuna hverju sinni.

 

Umsagnir til Alþingis

Undanfarin ár höfum við verðið dugleg að senda inn umsagnir í tengslum við lagafrumvörp sem fara í gegnum Alþingi og það er eitt af því sem við ættum að halda áfram að gera. Þetta starfsár var ekkert frumvarp sem átti erindi við félagið.

Upplýsingagjöf og samskipti við félagsmenn

Á umliðnu starfsári sendum við út tvö fréttabréf til félagsmanna þar sem við kynntum það helsta sem var á baugi hjá félaginu.

Samstarf við önnur félög og stofnanir

Auk samstarf við félög í tengslum við fundi og málþing hefur Félag stjórnsýslufræðinga átt gott samstarf við Endurmenntun HÍ undanfarin ár. Samstarfssamningur við stofnunina var endurnýjaður í byrjun árs en samstarfið felur meðal annars í sér afslátt til félagsmanna af tilteknum námskeiðum.

Í vetur héldum við sameiginlegan fund með félagi stjórnmálafræðinga um pólitíska spillingu í stjórnsýslunni og í stjórnmálum.

Félagsmenn

Innheimta félagsgjalda gengur vel. Ríflega 100 félagsmenn greiddu árgjaldið.  Félagsmenn hefur fjölgað jafnt og þétt á umliðnum árum en samkvæmt félagatali á vef félagsins eru félagsmenn nú 150 talsins.

Afmælisár 

Í lok nóvember ætlum við að halda upp á 10 ára afmæli félagsins með veglegum hætti. Á síðasta aðalfundi var ákveðið að stofna afmælisnefnd sem unnið hefur að undirbúninga að málþingi sem fer fram í nóvember. Félagið mun í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða halda málþing um hugmyndafræðina nýskipan í ríkisrekstri. Breski fræðimanninum Christopher Hood mun halda erindi um nýlega bók sína sem fjallar um árangurinn af nýskipan í ríkisrekstri innan bresku stjórnsýslunnar á undanförnum þremur áratugum. Dagskrá fundarins er langt á veg kominn og verður kynnt síðar.

Breytingar á lögum félagsins

Stjórnin leggur ekki til breytingar á lögum félagsins á aðalfundi félagsins í maí 2015.

Lokaorð

Eins og þessi yfirferð ber með sér þá höfum við haldið áfram á fyrri braut og unnið vasklega að umbótum.  Innra starfs félagsins hefur verið eflt og áhersla lögð á að taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni sem lúta að því að bæta stjórnskipun og stjórnsýslu í landinu. Sjálfur hef ég lagt áherslu á að efla samstarf félagsins við önnur sambærileg félög og efla tengsl við nemendur og félagsmenn.  Ég hlakka mikið til að halda upp á tíu ára afmælið

Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðavinnu og vil því nota ég tækifærið og þakka stjórnarmönnum og varamönnum fyrir mikið og gott samstarf á starfsárinu sem nú er að ljúka.

Flutt á aðalfundi félagsins 3. maí 2015

Elvar Örn Arason, formaður.