Ársskýrsla 2008 – 2009

Félag stjórnsýslufræðinga – ársskýrsla fyrir starfsárið  2008 – 2009

Sú stjórn Félags stjórnsýslufræðinga sem nú starfar var kjörin á snörpum aðalfundi sem haldinn var samhliða eða í lok MPA-dags Háskólans þ. 22. maí 2008 sl.

Í stjórn voru kosnir þau: Eggert Ólafsson, Gissur Pétursson sem formaður, Guðfinna B. Kristjánsdóttir, Guðrún Þórey Gunnarsdóttir, Hulda Arnljótsdóttir, Svavar Halldórsson og Sveinbjörg Pálsdóttir.

Stjórnin hittist á sínum fyrsta fundi í sumarlok þann 15. september og skipti með sér verkum og ræddi viðfangsefni vetrarins. Embætti hafa í vetur verið sem hér segir:

Gissur Pétursson formaður

Guðrún Þórey Gunnarsdóttir varaformaður

Svavar Halldórsson ritari

Sveinbjörg Pálsdóttir gjaldkeri

Eggert Ólafsson félagaskrárritari

Guðfinna S. Kristjánsdóttir og Hulda Arnljótsdóttir eru varamenn í stjórn en sitja fundi og taka þátt í þeim störfum sem til falla.

Varðandi verkefni vetrarins þá lýsti félagið áhuga á að efna til samræðu og fræðslufunda um stjórnsýsluleg málefni eins og áður og var þessum áhuga lýst í tilkynningu sem send var til félagsmanna eftir fyrsta stjórnarfundinn. Félagið lagði upp með þennan vilja í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands sem er okkar traustasti samverkaaðili.

Stefnt var að því að fyrsti fræðslufundurinn yrði seinni hluta október eða byrjun nóv. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að á þessum tímapunkti sáu ekki margir fyrir (eða fóru þá leynt með það) það gjörningaveður sem hófst skömmu síðar og á þjóðinni hefur dunið nú í vetur í efnahagsmálum og þjóðlífi öllu. Þetta hefur sett mark sitt á starfsemi félagsins og í það minnsta setti mína dagskrá verulega úr skorðum. Ekkert varð því af fræðslufundastarfi félagsins á haustmisseri.

Í byrjun árs sendum við út tilkynningu um greiðslu félagsgjalda. Í ljósi góðrar fjárhagslegar stöðu félagsins og niðurfærsluanda samfélagsins tók stjórn félagsins ákvörðun um að lækka þau úr 2000 kr. í 1500. Gjaldkeri mun svo gera grein nánar grein fyrir stöðu félagsins hér á eftir.

Stjórn félagsins hefur haldið fjóra stjórnarfundi í vetur þar sem starfsemin hefur verið rædd auk almæltra tíðinda. Fyrirhugað var að örva samstarf við Félag forstöðumanna ríkisstofnana um fræðslustarf um stjórnsýsluna en það félag hefur beint kröftum sínum talsvert í þá veru. Minna varð þó úr því en efni standa til en nú hagar þó svo til að undirritaður hefur tekið sæti í stjórn þess félags og vonandi getur það orðið til þess að samstarfið verði aukið og bætt.

Talsverð vinna hefur verið lögð í það hjá félaginu að halda saman félagaskrá og afla nýrra félagsmanna og vil ég þakka varaformanni félagsins Guðrúnu Þóreyju sérstaklega fyrir þá vinnu. Ekki verður annað skynjað en að góður áhugi sé hjá þeim sem lokið hafa stjórnsýslunámi að eiga aðild að þessu félagi.

Þann 27. mars sl. stóð félagið ásamt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands til hádegissamræðna um meistaranámið í opinberri stjórnsýslu við skólann sem kallað var : Mat á hagnýtu og fræðilegu gildi. Efni fundarins er meistaraverkefni Rósu Guðrúnar Bergþórsdóttur, sem nýlega útskrifaðist með MPA gráðu frá Háskóla Íslands. Verkefni hennar byggðist meðal annars á spurningalistakönnun sem send var á alla brautskráða úr námi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands frá upphafi.

Í erindi sínu greindi Rósa frá aðdraganda verkefnamatsins, stöðu MPA námsins víða um heim og að lokum niðurstöðum könnunarinnar sem framkvæmd var meðal útskrifaðra úr náminu hér á landi. Niðurstöðurnar eru að mestu leyti jákvæðar fyrir námið en helstu veikleika námsins mátti greina í þáttum eins og innihaldi vissra námskeiða, námsmati og kennsluaðferðum og að lokum í fjarnáminu.

Niðurstöðurnar gagnast aðstandendum námsins við frekari þróun þess. Einnig eru þær gagnlegar við að taka til athugunar hvort rétt sé að auka kröfur til stjórnenda hjá hinu opinbera frá því sem nú er og gera þá jafnvel hluta af MPA-námi eða öðru sambærilegu námi að skyldunámi fyrir þennan hóp.

Að erindinu fóru fram opnar umræður og síðan var boðið upp á hádegissnarl. Þessi fundur tókst vel og var að okkar mati liður í því hlutverki félagsins að vera bakhjarl og stuðningsaðili við MPA- námið í skólanum.

Ágætu félagsmenn

Nú eru miklar blikur á lofti og breytingar framundan í stjórnsýslunni og á það örugglega bæði við um stjórnsýslu ríkisins sem sveitarfélaganna.

Ég held að það sé mikilvægt að til sé félagsskapur eins og okkar sem getur tekið þátt í faglegri umræðu um það sem gert er og hvort það muni leiða til framþróunar og skilvirkni. Það fer því ágætlega á því að heyra hér á fundinum fræðsluinnlegg frá sérfræðingi á sviðiðstjórnsýslu um réttar aðferðir við sameiningar opinberra stofnana.

Ég vil í lokin lýsa þakklæti mínu til meðstjórnarmanna fyrir gott samstarf á liðnu starfsári og vona að við getum haldið áfram hægt og bítandi að byggja upp okkar góða félag.

Flutt á aðalfundi félagsins í maí 2009

Gissur Pétursson
formaður