Ársskýrsla 2007 – 2008

Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga 2007-2008.

Á síðasta aðalfundi urðu breytingar á stjórn félagsins þó ekki væri komið að stjórnarkjöri. Það var vegna þess að einn stjórnarmanna reyndist ekki geta starfað með stjórninni og því varð að kjósa annan í hans stað. Á fundinum var einnig ákveðið að fjölga í stjórninni og því voru tveir nýjir stjórnarmenn kjörnir, Guðrún Þórey Gunnarsdóttir og Svavar Halldórsson. Fyrir voru í stjórn Grétar Eyþórsson, Gissur Pétursson, Esther Guðmundsdóttir, Svandís Ingimundardóttir og Ingibjörg Ásgeirsdóttir. Endurskoðendur eru Kristján Guðjónsson og Margrét Björnsdóttir sem einnig hefur starfað með stjórninni og séð henni fyrir fundaraðstöðu. Grétar Eyþórsson hefur ekki getað starfað með stjórninni á þessu starfsári.

Stjórnin hefur komið saman á sjö stjórnarfundum á liðnu starfsári auk aðalfundar. Á starfsárinu voru félagar boðaðir á þrjár samkomur:

Þann 28. september bauð Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar til kynningar á starfsemi stofnunarinnar. Gissur greindi ítarlega frá hlutverki og verkefnum stofnunarinnar og bauð upp á kaffiveitingar. Á kynninguna mættu 15 félagar og fyrirspurnir og umræður urðu í lok kynningarinnar.

Þann 30. október var hádegisfyrirlestur í Tæknigarði þar sem Jón Magnússon sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu fjallaði um verkaskiptingu ráðuneyta og stofnana við framkvæmd fjárlaga. Hægt var að kaupa léttan hádegisverð á staðnum og hugsunin sú að félagar gætu notað hádegishlé til að hittast og spjalla og hlýða á stutt erindi í hádeginu. Mættir voru 3 félagar.

Þann 25. janúar bauð Samband íslenskra sveitarfélaga félögum til kynningarfundar. Þar greindi Þórður Skúlason framkvæmdastjóri sambandsins frá hlutverki sambandsins og þýðingu þess fyrrir sveitarfélög landsins sem sameiginlegur málsvari þeirra og hagsmunagæsluaðili. Þá fór hann yfir verksvið einstakra sviða sambandsins og í kjölfarið var opnað fyrir umræður. Að lokinni kynningu bauð sambandið fundarmönnum sem voru því miður fáir, upp á veitingar.

Stjórnin hafði ákveðið að halda nokkuð stóra ráðstefnu um málefni innflytjenda og stöðu þeirra gagnvart stjórnsýslunni. Undirbúningur var kominn vel á veg og ákveðið hafði verið að fjalla um menntamál, heilbrigðismál og húsnæðismál. Til stóð að halda ráðstefnuna í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana sem var mjög fúst til samstarfs um þetta verkefni. Það kom hins vegar í ljós að félagsmálaráðuneytið hafði líka ákveðið að halda málþing um málefni innflytjenda og var þeirra málþing fyrr á dagskrá en okkar. Af þessum sökum þótti ófært að boða til annars fundar um næstum sömu málefni mánuði seinna. Þessi hugmynd féll því niður en líklegt má teljast að þessi mál verði verðugt verkefni einhvern tíma á næstu árum.

Þessi fyrstu tvö ár félagsins hafa verið notuð til að reyna að finna heppilegar og virkar leiðir til að ná þeim markmiðum félagsins sem sett eru fram í lögum þess. Það hafa verið haldin tvö stór og áhugaverð málþing þar sem mættu samtals 150 manns. Þau voru bæði haldin í samvinnu við aðra aðila og skýrir það að hluta góða mætingu. Hádegisfundur um fjárlög er greinilega ekki aðferð til að ná hópnum saman, 15 félagsmenn á kynningu Vinnumálastofnunar var í góðu lagi en þegar búið er að undirbúa móttöku hóps með fyrirlestrum og veitingum eins og hjá Samtökum sveitarfélaga þá er auðvitað ósköp leiðinlegt þegar aðeins 6 mæta. Það er þó greinilegt að fólk vill hafa félag því væntanlega eru flestir íslenskir stjórnsýslufræðingar í þessu félagi sem telur nú 61 félagsmann. Spurningin sem áfram verður að leita svara við er hvað vill þessi hópur gera saman. Það verður meginverkefni nýrrar stjórnar, en ég vil eindregið hvetja félagsmenn til að láta í sér heyra og koma með tillögur og ábendingar til stjórnarinnar um áhugaverð verkefni.

Núverandi stjórn hefur hér með lokið kjörtímabili sínu og fjórir stjórnarmenn ganga úr stjórn. Þrír gefa kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir félagið. Stjórnarkjör fer því fram hér á eftir og verður kynnt nánar af fundarstjóra. Ég vil fyrir mitt leyti þakka stjórnarmönnum og félögum fyrir ánægjulegt samstarf og óska nýrri stjórn góðs gengis.

Fyrir stjórnarfund 22. maí 2008.

Ingibjörg Ásgeirsdóttir
formaður