Ársskýrsla 2006 – 2007

Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga 2006 – 2007

Félag stjórnsýslufræðinga var stofnað á fundi í Háskóla Íslands þann 18. maí 2006. Stofnfélagar voru 40 talsins. Á fundinum voru lögð fram drög að lögum fyrir félagið og voru þau samþykkt. Í stjórn voru kjörin:

Ingibjörg Ásgeirsdóttir formaður

Grétar Eyþórsson varaformaður

Gissur Pétursson ritari

Esther Guðmundsdóttir, gjaldkeri

Svandís Ingimundardóttir félagatal og

Ívar Arndal, varamaður.

Endurskoðendur félagsins eru Kristján Guðjónsson og Margrét Björnsdóttir sem auk þess bauð sig fram til að vera starfsmaður félagsins og hefur aðstoðað við ýmsa praktíska þætti auk þess að sjá stjórninni fyrir fundaraðstöðu.

Félagsmenn eru nú 43 talsins.

 

Einn stjórnarmanna, Ívar Arndal hefur ekki sótt stjórnarfundi og hefur hann tilkynnt að hann muni ekki geta starfað með stjórninni. Því þykir rétt að reyna að fá nýja meðstjórnendur til starfa.

Stjórnin hefur komið saman á átta almennum stjórnarfundum auk þriggja funda sem haldnir hafa verið sérstaklega til undirbúnings fyrir málþing. Störf stjórnar snerust framan af um hagnýt verkefni svo sem að skrá félagið og fá kennitölu, stofna reikning og koma upp félagatali. Töluverð umræða varð um hlutverk og verkefni félagsins og þótti mikilvægast að vinna að liðum 2- 4 í 2. grein laga félagsins þ.e. að stuðla að því að félagsmenn njóti fræslu um sviðið, að kynna menntun félagsmanna og efla ímynd þeirra og að efla kynni og tengsl félagsmanna.

Við nánari umræðu um lög félagsins kom í ljós að stjórnin taldi hæpið að það væri raunhæft verkefni félagsins „Að efla hagnýta menntun og rannsóknir í stjórnsýslufræðum og skyldum fræðigreinum.“ eins og segir í fyrsta lið 2. greinar laganna. Því leggur stjórnin til að þessi liður verði felldur út úr lögunum. Stefnt var að því að halda mánaðarlega stjórnarfundi yfir vetrartímann en færri á sumrin og gekk það eftir.

 

Á starfsárinu hefur félagið staðið fyrir tveimur málþingum. Þann 15. nóvember 2006 var haldið málþing undir yfirskriftinni Samskipti stofnana og ráðuneyta.

Rökin fyrir að velja þetta efni til umfjöllunar voru þau að á síðustu árum hefur fjölgað rannsóknum um skilvirkni og verklag í opinberum rekstri og í þeim hafa komið fram mörg álitamál um það hvernig þessum samskiptum skuli háttað. Á þetta ekki einungis við um fjármálaleg samskipti heldur einnig um faglega endurgjöf og stefnumótun. Margir telja að þessi samskipti gætu verði markvissari og að meira samræmis þyrfti að gæta milli ráðuneyta varðandi samskipti þeirra við undirstofnanir. Markmiðið með umræðunni var að leitast við að greina hvernig best væri að haga samskiptum stofnana og ráðuneyta.

Málþingið var haldið á Grand Hótel í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisins og sóttu það um 80 manns.

Dagskráin var sem hér segir:

Samskipti stofnana og ráðuneyta

Á veikum þræði? Tengsl ráðuneyta og stofnana.Gunnar Helgi Kristinsson prófessor við Félagsvísindadeild HÍ.

Frá sjónarhóli forstöðumanns opinberrar stofnunar. Rannveig Gunnarsdóttir forstjóri Lyfjastofnunar.

Frá sjónarhóli ráðuneytis. Jón Magnússon viðskiptafræðingur, fjármálaráðuneyti.

Málþingsstjóri var Björn Karlsson brunamálastjóri.

Að loknum erindum báru fundarmenn fram spurningar og almenn umræða varð um samskipti stofnan og ráðuneyta.

 

Fyrir næsta málþing þótti rétt að taka fyrir málefni sem tengdist sveitarstjórnarstiginu og var ákveðið að fjalla um Skil stjórnsýslu og stjórnmála á sveitarstjórnarstigi.

Fengnir voru fimm fyrirlesarar sem hafa fjölbreytta þekkingu og reynslu af sveitarstjórnarmálum. Þeir voru beðnir að fjalla um málið með eftirtaldar spurningar í huga:

Eru skil stjórnmála og stjórnsýslu skýr í sveitarfélögum? Hvernig eru þau skilgreind við stjórnun sveitarfélaga? Hver mótar stefnuna og hvernig er henni framfylgt? Breytist hin pólitíska stefna í meðförum þeirra sem sjá um framkvæmdina? Hvar liggur hið raunverulega vald og hver ber endanlega ábyrgð á því sem gert er í nafni sveitarfélagsins? Skiptir máli hvort framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins kemur af framboðslista og stýrir á grunni pólitískra skoðana eða hvort framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins er ráðinn á faglegum forsendum? Er almennt togstreita á milli faglegra og pólitískra sjónarmiða við stjórnun sveitarfélaga eða eru þessir þættir í góðu jafnvægi?

Fyrirlesararnir sem fjölluðu um þessar spurningar meðal annars voru:

Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri í Fjarðarbyggð og fv. borgarritari, Róbert Ragnarson, bæjarstjóri í Vogum og fv. verkefnisstjóri í félagsmálaráðuneytinu v/sameiningar sveitarfélaga, Björg Ágústsdóttir, ráðgjafi hjá Alta og fv. bæjarstjóri í Grundarfirði, Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr og fyrrverandi borgarstjóri og Grétar Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann að Bifröst.

Málþingsstjóri var Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ og stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Málþingið var haldið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og fór fram í Odda í Háskóla Íslands. Um fimmtíu manns sóttu málþingið og í lok fyrirlestra urðu almennar umræður um efni þingsins.

Áhugi er fyrir því í stjórn Félagsins að efna til stofnanaheimsókna og kynna félagsmönnum með þeim hætti starfssvið ýmissa stofnana. Stefnt er að því að þær hefjist með haustinu.

 

Á öðru starfsári Félags stjórnsýslufræðinga stendur til að halda tvö málþing, koma á fyrrnefndum stofnanakynningum og leita leiða til að kynna menntun félagsmanna og efla ímynd þeirra. Ennfremur að efla kynni og tengsl félagsmanna og skapa vettvang fyrir óformleg samskipti eins og lög félagsins gera ráð fyrir. Félagsmenn eru hvattir til að vera virkir og taka þátt í fundum, málþingum og heimsóknum sem stjórnin boðar til en ekki síður að koma á framfæri hugmyndum sem stuðlað geta enn frekar að því að sett markmið félagsins náist.

 

Flutt á aðalfundi félagsins 31. maí 2007

Ingibjörg Ásgeirsdóttir
formaður