Ársskýrsla 2013 – 2014

Ársskýrsla Félags stjórnsýslufræðinga starfsárið 2013-2014.

Stjórn

Á síðasta aðalfundi 30. maí 2013, urðu nokkrar breytingar á stjórn félagsins sem var þannig skipuð starfsárið 2013-2014:

Rósa Guðrún Bergþórsdóttir, formaður

Dóra Magnúsdóttir, ritari

Elvar Örn Arason, vefstjóri

Gestur Páll Reynisson, varaformaður og gjaldkeri

Guðbjörn Guðbjörnsson, félagaskrárritari

Varamenn voru Bergný Jóna Sævarsdóttir og Eggert Ólafsson

Endurskoðendur reikninga voru Kristinn Valdimarsson og Margrét S. Björnsdóttir.

 

Stjórnarfundir

Stjórnin hélt samtals 10 fundi á starfsárinu, þar af einn lengri stefnumótunarfund í september. Allir fundir voru bókaðir og voru fundargerðir birtar jafnóðum á vef félagsins eins og áður.

 

Viðburðir

Fyrsti málfundur starfsársins fór fram í október 2013, en þar ræddu Alþingismennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Oddný Harðardóttir fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 og hugmyndir um hagræðingu á næstu árum. Fundarstjóri var Gestur Páll Reynisson, stjórnsýslufræðingur

Í nóvember tók Félag stjórnsýslufræðinga svo þátt í morgunverðarfundi um sameiningu og endurskipulagningu ríkisstofnana með Stofnun stjórnsýslu og stjórnmála, Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Ríkisendurskoðun og Félagi forstöðumanna ríkisstofnana.

Í apríl 2014 var svo boðað til fundar þar sem rætt var um möguleika á breyttu stjórnskipulagi á sviði félagsþjónustu og barnaverndar þar sem þær Hjördís Árnadóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og félagssviðs Reykjanesbæjar og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands héldu erindi. Fundarstjóri var Ingibjörg Broddadóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti.

Að lokum boðuðu Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt Félagi stjórnsýslufræðinga til hádegismálþings í maí þar sem rætt var um leiðtogahlutverk bæjar- og sveitarstjóra. Framsögumenn á fundinum voru Eva Marín Hlynsdóttir, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi.

 

Umsagnir til Alþingis

Félag stjórnsýslufræðinga skilaði inn umsögn til utanríkismálanefndar Alþingis um tillögu um að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Í umsókninni tók félagið ekki afstöðu til þess hvort að hagsmunum Íslands væri betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins en benti á að frá því að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu hafi mikið starf verið unnið innan stjórnsýslunnar í tengslum við umsóknarferlið. Vísað var til málþings sem félagið stóð fyrir árið 2012 þar sem varpað var ljósi á áhrif Evrópusamstarfsins á íslenska stjórnsýslu í fortíð og nútíð og leitað var svara við því hvernig EES-samningurinn og umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu hefur leitt til breytinga á áherslum og verkefnum íslenskrar stjórnsýslu. Á málþinginu kom fram að umsóknarferlið sjálft og þátttaka stofnanna í margskonar verkefnum því tengdu myndi efla getu þeirra til að fást við fjölbreytileg verkefni í framtíðinni. Í umsögn Félags stjórnsýslufræðinga til utanríkismálanefndar segir  að félagið telji að það mikla starf sem unnið hafi verið innan stjórnsýslunnar í tengslum við aðildarviðræðurnar muni fara í súginn verði aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins slitið á þessum tímapunkti. Það er mat stjórnarinnar að þátttaka íslenskra stofnanna í verkefnum tengdum aðildarviðræðunum muni efla þær og auka getu þeirra til að fást við krefjandi verkefni sem tengjast aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu.

 

Nýtt útlit fréttabréfs og nýr vefur

Áfram var haldið með áherslumál félagsins í þá veru að bæta útlit á því efni sem sent er út í nafni félagsins og sýnileika þess á veraldarvefnum. Í því skyni var ráðist í að breyta og bæta útlit fréttabréfsins sem áður hafði verið sent út í WordPress. Fyrsta fréttabréfið þar sem notast var við Jumla var sent út í júní en alls voru 4 fréttabréf send út á starfsárinu auk nokkurra tilkynninga til félagsmanna. Elvar Örn Arason átti mestan þátt í að nýju útliti fréttabréfsins var komið á og hélt hann utan um útgáfu þess í heild sinni.

 

Á haustmisseri var leitað tilboða í uppfærslu á vef félagsins og hönnun nýs útlits. Verkið var svo falið Guðmundi Jóni Guðjónssyni, vefhönnuði og kennara í upplýsingatækni og varð vefur félagsins í nýju útliti sýnilegur í ársbyrjun 2014.

 

Samstarf við önnur félög

Auk samstarf við félög í tengslum við fundi og málþing hefur Félag stjórnsýslufræðinga átt gott samstarf við Endurmenntun HÍ undanfarin ár. Samstarfssamningur við stofnunina var endurnýjaður í febrúar en samstarfið felur meðal annars í sér afslátt til félagsmanna af tilteknum námskeiðum.

 

Félagsmenn

Á síðasta starfsári (maí 2012-2013) greiddu 103 félagsmenn árgjald en á nýliðnu starfsári (maí 2013-2014) greiddu 110 félagsmenn árgjald. Þeim félagsmönnum sem greiða árgjald hefur því fjölgað um 7 talsins sem helst í hendur við fjölgun félagsmanna en samkvæmt félagatali á vef félagsins eru félagsmenn nú 128 á móti 121 í fyrra.

 

Breytingar á lögum félagsins

Stjórnin leggur ekki til breytingar á lögum félagsins á aðalfundi félagsins í maí 2014.

 

Lokaorð

Ég hef setið í stjórn félagsins frá árinu 2010 eða í fjögur ár. Það hefur verið einkar ánægjulegt og lærdómsríkt að starfa fyrir félagið. Ég hef kynnst mörgu góðu fólki og þegar litið er til baka þá sést að mörgu hefur verið áorkað á tímabilinu. Mér er fremst í huga þær miklu breytingar sem ráðist hefur verið í varðandi ímyndar- og kynningarmál félagsins, nýtt merki var hannað, keypt var nýtt lén, vefur félagsins var uppfærður frá grunni og nýtt fréttabréf leit dagsins ljós. Þá hafa margir góðir fundir og málþing verið haldin, til dæmis málþing sem haldið var í október 2012 um áhrif aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið um áhrif á íslenska stjórnsýslu, fundur um áhrif tillagna stjórnlagaráðs á stjórnskipan og stjórnsýslu í apríl 2012 og að lokum fundur um mögulegar breytingar á stjórnsýslu og -skipan félagsmála og barnaverndar 2014. Án efa eru margir viðburðir og verkefni ónefnd en hér skal staðar numið.

 

Eins og sjá má af þessari ársskýrslu hefur stjórn félagsins haldið áfram á fyrri braut og unnið ötullega að umbótum, hvort heldur sem innri umbótum sem lúta að starfsemi félagsins eða verkefnum  sem miða að því að hafa áhrif á þjóðfélagsumræðu og leiða til bættrar stjórnskipunar og stjórnsýslu í landinu. Starfsemin er borin uppi af sjálfboðavinnu, þannig að ljóst er að fulltrúar í stjórn vinna óeigingjarnt og gott starf, knúið áfram af löngun og þörf til að hafa áhrif sem leitt geta til úrbóta.

Um leið og ég þakka núverandi fulltrúum í stjórn gott samstarf á liðnum árum óska ég nýrri stjórn velfarnaðar og er ég sannfærð um að henni muni farnast vel í starfi og leysa fyrirliggjandi verkefni með sóma.

Flutt á aðalfundi félagsins 22. maí 2014

Rósa Guðrún Bergþórsdóttir, formaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *