Fréttir 2013

Sameining og endurskipulagning ríkisstofnana

Höfundur: Elvar Örn Arason þann 08 Nóvember 2013 .

Félag stjórnsýslufræðinga tekur þátt í morgunverðarfundi um sameiningu og endurskipulagningu ríkisstofnana  með Stofnun stjórnsýslu og stjórnmála, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Ríkisendurskoðun og Félag forstöðumanna ríkisstofnana.

Morgunverðarfundar þriðjudaginn 19. nóvember á Grand hótel Reykjavík kl.  8:00-10:00

Morgunverður frá kl. 8. Dagskrá hefst kl. 8:30

Sameining og endurskipulagning ríkisstofnana

Bestu aðferðir við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sameiningar og samþættingu mannauðs

Þátttökugjald kr. 4400,-, morgunverður innifalinn. Skráning HÉR

Dagskrá:

1. Sigurður Helgi Helgason, skrifstofustjóri skrifstofu stjórnunar og umbóta hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu – Endurmótun stofnanakerfis ríkisins: Stefna, undirbúningur og framkvæmd

2. Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar- Vel heppnuð sameining krefst meira en góðs undirbúnings

3. Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins – Samruni tveggja menningarheima – reynsla af mótun velferðarráðuneytisins

4. Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri – Sameining með áherslu á mannauðinn

Fundarstjóri er Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN

Á undanförnum árum hafa sameiningar stofnana átt sér stað á velflestum sviðum ríkiskerfisins.  Má þar t.d. nefna sameiningu ráðuneyta, skattstofa, heilbrigðisstofnana, háskóla og stofnana á sviði umhverfismála.  Mikil þekking og reynsla hefur byggst upp hjá stjórnendum, stjórnvöldum og eftirlitsaðilum hvernig best verði staðið að slíkri endurskipulagningu á starfsemi. Stjórnvöld hafa ákveðið að halda áfram á sömu braut og áforma að fækka opinberum stofnunum um 50 á næstu árum og að stofnanir með færri en 30 starfsmenn muni heyra til undantekninga.  Markmiðið er að einfalda ríkiskerfið og efla um leið starfsemi opinberra stofnana.   Á fundinum verður horft til bestu aðferða en einnig hvað beri að varast við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sameininga stofnana og samþættingu mannauðs.

 

Fjárlög ársins 2014: Hagræðing í ríkisrekstri?

Höfundur: Elvar Örn Arason þann 30 September 2013 .

Félag stjórnsýslufræðinga boðar til hádegisfundar á veitingastaðnum Höfninni, Geirsgötu 7 (við gömlu höfnina), föstudaginn 4. október kl.12.00-13.00.
Alþingismennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Oddný Harðardóttir munu ræða fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 og hugmyndir um hagræðingu á næstu árum.
Fundarstjóri er Gestur Páll Reynisson, stjórnsýslufræðingur.

Stjórn félagsins hvetur félagsmenn og aðra áhugasama til að mæta á þennan fyrsta hádegisfund félagsins starfsárið 2013-2014.

Skráning er á netfangið stjorn@stjornsysla.is.

Verð fyrir léttan hádegisverð (súpu og létt hlaðborð) er kr.1950.

Sértilboð til félagsmanna af námskeiðum hjá Endurmenntun Háskóla Íslands

Höfundur: Elvar Örn Arason þann 16 September 2013 .

Haustið 2013 bjóðast félagsmönnum eftirfarandi námskeið með 15% afslætti:

Practical English – skráningarfrestur er til 16. september
o nánari upplýsingar hér 

Maðurinn Verdi – 200 ára minning um óperutónskáldið Guiseppe Verdi
– skráningarfrestur er til 2. október
o nánari upplýsingar hér

Grunnatriði í verkefnastjórnun – skráningarfrestur er til 8. október
o nánari upplýsingar hér 

Siðfræði – Að greina, gagnrýna og bæta siðferði – skráningarfrestur er til 14. október
o nánari upplýsingar hér

Gerð viðskiptaáætlana – skráningarfrestur er til 28. október
o nánari upplýsingar hér

Frammistöðustjórnun – skráningarfrestur er til 4. nóvember
o nánari upplýsingar hér

Athugið að nauðsynlegt er að taka fram félagsaðild í athugasemdareit við skráningu til að afsláttur taki gildi.

 

Ályktun stjórnar Félags stjórnsýslufræðinga vegna útgáfu skýrslu um Íbúðalánasjóð

Höfundur: Elvar Örn Arason þann 08 Júlí 2013 .

Stjórn Félags stjórnsýslufræðinga fagnar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Í skýrslunni er meðal annars komið inn á hvaða afleiðingar ófullnægjandi  starfshættir innan íslenskrar stjórnsýslu geta haft, líkt og raunin varð á með starfsemi Íbúðalánasjóðs á árunum 1999-2010. Slælegir stjórnarhættir, ónóg sérþekking stjórnar og starfsmanna og óljós skilgreining á stjórnsýslulegri stöðu Íbúðalánasjóðs ásamt óskilvirku eftirliti ráðuneyta og stofnana með rekstri sjóðsins eru allt víti til að varast eins og glöggt má lesa úr skýrslunni. Niðurstöður skýrslunnar eru áskorun til bæði embættismanna og stjórnmálamanna um að draga lærdóm af mistökum og láta ekki skammtímahagsmuni vera ráðandi í ákvörðunum heldur hagsmuni heildarinnar til lengri tíma. Um leið og stjórn félagsins hvetur alla sem sinna störfum í þágu hins opinbera að virða þá ábyrgð sem starfinu fylgir, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr.70/1996,  eru stjórnmálamenn, embættismenn og fjölmiðlar  hvattir til að halda uppi umræðu um mikilvægi umbóta innan stjórnsýslunnar og stjórnmála á Íslandi.

Aðalfundur félagsins var haldinn þann 30. maí

Höfundur: Eggert Ólafsson þann 06 Júní 2013 .

Aðalfundur Félags stjórnsýslufræðinga var haldinn þann 30. maí sl.

Fundurinn hófst á áhugaverðu erindi Gunnars Helga Kristinssonar prófessors um væntanlegan stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og áhrif hans á stjórnsýsluna hér á landi.

Að því loknu kynnti Eggert Ólafsson formaður félagsins nýtt lógó félagsins og nýja heimasíðu, sjá stjornsysla.is. Breytingar urðu á stjórn félagsins en þær Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir og Sveinbjörg Pálsdóttir hættu í stjórn og eru þeim þökkuð góð störf í þágu félagsins. Þá gaf Eggert ekki kost á sér áfram í embætti formanns og var Rósa Guðrún Bergþórsdóttir kjörin í hans stað. Eggert tók sæti varamanns auk þess sem þær Dóra Magnúsdóttir og Bergný Jóna Sævarsdóttir voru kjörnar í stjórn. Þá var hófleg hækkun félagsgjalda samþykkt sem og tillaga stjórnar að lagabreytingu.

Að fundinum loknum var boðið upp á léttar veitingar.Sjá nánar ífundargerð.

Aðalfundur haldinn á morgun 30. maí !

Höfundur: Eggert Ólafsson þann 30 Maí 2013 .

Aðalfundur félagsins verður haldinn á morgun! Staður: Oddi, stofa 101. Stund: Fimmtudagur 30. maí 2013 kl. 16:30

Fundurinn hefst á áhugaverðu erindi Gunnars Helga Kristinssonar prófessors um væntanlegan stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og áhrif hans á stjórnsýsluna hér á landi.

Þá verður kynnt nýtt lógó félagsins, heimasíða o.fl. spennandi. Ekki má gleyma hefðbundnum aðalfundarstörfum eins og kveðið er á um í lögum félagsins. Lögð verður fram tillaga að lagabreytingu sem sjá má í lok fréttar, hér neðar.

Breytingar verða í stjórn félagsins þar sem þær Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir og Sveinbjörg Pálsdóttir hafa ákveðið að hætta í stjórninni. Auk þess gefur Eggert Ólafsson ekki kost á sér áfram sem formaður en varaformaður félagsins, Rósa Guðrún Bergþórsdóttir, gefur kost á sér til formanns. Við eigum von á framboðum tveggja nýrra stjórnarmanna, en vekjum athygli á því að öllum fullgildum félagsmönnum er frjálst að gefa kost á sér til stjórnarsetu á aðalfundinum.

Boðið verður upp á léttar veitingar í lok fundarins, væntanlega um kl. 17:30.

Tillaga að lagabreytingu:

10. gr. breytist og hljóði svo: (breytingin/viðbótin er feitletruð)

10. gr. Hlutverk stjórnar

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Félagsgjöld skulu greidd eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Gerðir stjórnarinnar skulu bókaðar.

Fræðslukönnun Félags stjórnsýslufræðinga og Endurmenntunar HÍ, aðalfundur og félagsgjöldin

Höfundur: Eggert Ólafsson þann 13 Maí 2013 .

Félag stjórnsýslufræðinga og Endurmenntun HÍ hafa átt með sér samstarf í eitt ár. Markmið samstarfsins er að mæta áhugasviðum og þörfum félagsmanna með námskeiðsframboði. Það er því mikilvægt að fá fram viðhorf og hugmyndir félagsmanna í Félagi stjórnsýslufræðinga til símenntunar.
Þessi könnun er send öllum félagsmönnum og biðjum við þig vinsamlega um að gefa þér nokkrar mínútur til að svara könnuninni, svör þín eru okkur afar mikilvæg.
Þú nálgast könnunina með því að smella á eftirfarandi slóð:
http://www.surveygizmo.com/s3/1223643/fraedslukonnun-felagstjornsyslufraedinga
Könnunin er opin til og með 20. maí 2013.
Með kveðju og þakklæti,
Endurmenntun og Félag stjórnsýslufræðinga

ES. Eins og jafnan, vekjum við athygli á heimasíðu félagsins, t.d. nýjustu fundargerðinni, á síðunni á Facebook og hópnum okkar á Facebook.

Þá vekjum við athygli á því að nú styttist í aðalfund félagsins sem verður haldinn fimmtudaginn 30. maí kl. 16:30 í 101 Odda. Við eigum von á áhugaverðu erindi og áhugaverðum aðalfundi.

Að lokum minnum við þau ykkar sem ekki hafa greitt hófleg árgjöldin um að kíkja í heimabankann við fyrsta tækifæri 🙂

Stjórnsýslulög í 20 ár – Málþing

Höfundur: Eggert Ólafsson þann 03 Mars 2013 .

Um þessar mundir eru liðin 20 ár frá setningu stjórnsýslulaganna. Af því tilefni stendur Stjórnsýsluskóli Stjórnarráðs Íslands fyrir málþingi um lögin og áhrif þeirra á starfshætti og málsmeðferð í stjórnsýslunni. Málþingið er einkum ætlað starfsfólki ráðuneyta, sveitarfélaga og stofnana. Þátttökugjald er 2.500 kr. og nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram á http://www.forsaetisraduneyti.is/verkefni/stjornsysluskoli/skraning/

 

Staður: Þjóðmenningarhúsið

Stund:  Þriðjudagurinn 12. mars kl. 9-12 

Lýsing: Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis verður með framsögu um áhrif stjórnsýslulaganna á starfshætti og málsmeðferð í stjórnsýslunni og veltir upp þeirri spurningu hvort þörf sé umbóta og hvar þá helst. Tryggvi gerir einnig grein fyrir gerð fræðsluefnis um stjórnsýslureglur fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Leitað verður eftir hugmyndum og viðbrögðum um efnistök slíks fræðsluefnis. Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu og Sigrún Ágústsdóttir sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun bregðast við erindi umboðsmanns Alþingis. Í kjölfarið verða almennar umræður. Fundarstjóri er Páll Þórhallsson skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Afsláttur hjá Endurmenntun, félagsgjöldin og ritnefndin

Höfundur: Eggert Ólafsson þann 24 Febrúar 2013 .

Við í stjórn félagsins vekjum athygli á því að nú fá félagsmenn aftur afslátt af völdum námskeiðum hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Við minnum líka á nýstofnaða ritnefnd félagsins og hvetjum áhugasama til þess að hafa samband við hana.

Þá bendum við á að nú hafa félagsmenn tækifæri til þess að greiða hóflegt árgjald félagsins, sem er aðeins 1.500 kr., með því að skjótast í heimabankann sinn og samþykkja valkröfu sem þar á að birtast. Það væri gott að heyra ef svo er ekki í einhverjum tilvikum og einnig ef uppfæra þarf félagatalið okkar á heimasíðu félagsins.

Þá vekjum við athygli á heimasíðu félagsins, t.d. nýjustu fundargerðinni, á síðunni á Facebook og hópnum okkar á Facebook.

Ný ritnefnd félagsins

Höfundur: Eggert Ólafsson þann 13 Janúar 2013 .

Stjórn félagsins óskar félagsmönnum gleðilegs nýs árs og þakkar samstarfið á liðnum árum.

Stjórnin hélt sinn fyrsta fund ársins 10. janúar og ákvað m.a. að gefa út rafrænt fréttabréf fyrir aðalfund félagsins í vor!

Markmið með útgáfunni eru:

  1. Að kynna fyrir félagsmönnum starfsemi félagsins og viðburði.
  2. Að vera umræðuvettvangur fyrir málefni sem tengjast menntun félagsmanna með sérstaka áherslu á íslenska stjórnsýslu.
  3. Að vera hvatning fyrir þátttöku í vaxandi starfi félagsins.

Til þess að vinna að útgáfunni setjum við á laggirnar ritnefnd sem hefur umsjón með fréttabréfinu. Stjórn félagsins auglýsir hér með eftir áhugasömum félagsmönnum til að taka þátt í þessu starfi og koma með frekari hugmyndir um það. Fyrir hönd stjórnari sitja í ritnefnd Elvar Örn Arason og Gestur Páll Reynisson.