Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2015

Fundur um spillingu í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi

Askja hádegisfundur

Félög stjórnsýslu- og stjórnmálafræðinga halda í sameiningu fund um spillingu í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Fundurinn fer fram föstudaginn 27. nóvember kl. 12:30 – 13:30 í Öskju, stofu N-132.

Ísland kemur yfirleitt vel út í alþjóðlegum samanburði hvað varðar spillingu. Samt sem áður berast fréttir af spillingu í viðskiptalífi og stjórnmálum á Íslandi og ákveðnu úrræðaleysi við að uppræta hana. Á fundinum munu frummælendur varpa ljósi á spillingarhættur sem leynast í íslensku samfélagi, hvernig stuðla megi að heillindum og koma í veg fyrir spillingu.

Framsögumenn eru Ásgeir Brynjar Torfason rekstrarhagfræðingur, Jón Ólafsson heimsspekingur og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans stýrir umræðum.

Allir velkomnir.

Félag stjórnsýslufræðinga og Félag stjórnmálafræðinga

Viðtal við stefnumótunarsérfræðinginn Héðinn Unnsteinsson

Hedinn_halvbild

Héðinn Unnsteinsson starfar sem stefnumótunarsérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu.

Héðinn lauk íþróttakennaragráðu árið 1996 og B.Ed. í kennslufræðum frá Háskóla Íslands 1999. Hann lauk MS í alþjóðlegri stefnumótun og greiningu (International Public Policy Analysis) með áherslu á heilbrigðis- og félagsmál árið 2003 frá Háskólanum í Bath. Framhaldsnámið í Bath fannst honum mjög vítt nám þar sem það fjallaði almennt um stefnuferla og stjórnmál. Bath var mjög góður skóli og þar kenndu góðir kennarar. Notuð voru raunhæf dæmi af vettvangi Evrópu og alþjóðlegur hópur nemenda var í náminu sem gaf víða sýn á námið.

Fyrri störf: Héðinn starfaði meðal annars sem verkefnisstjóri verkefnisins Geðrækt. Hann var í starfsnámi hjá Alþjóða heilbrigðisstofnunninni og starfaði þar eftir útskrift úr framhaldsnáminu. Fyrst starfaði hann sem ráðgjafi í Genf. Að því loknu starfaði hann á Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Danmörku sem Technical Officer með áherslu á geðheilbrigðisstefnu. Þessi ár einkenndust af miklum ferðalögum, um 40-45 ferðir á ári. Verkefnin fólust í því að skrifa yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun fyrir heilbrigðisráðherra í Evrópu sem var skrifað undir á ráðherrafundi allra ráðherranna 2005 í Helsinki. Samhliða störfum hjá WHO starfaði hann einnig sem stundakennari í Háskólanum í Reykjavík. Eftir það tók hann til starfa hjá Heilbrigðisráðuneytinu við stefnumótun í lýðheilsu- og geðheilbrigðismálum.  Í dag starfar Héðinn sem stefnumótunarsérfræðingur hjá Forsætisráðuneytinu. Fyrst fólst starf hans í stefnumörkuninni Ísland 2020 og samhæfingu stefnu og áætlana yfir allt Stjórnarráðið. Í dag er hans hlutverk að stýra stefnuráði Stjórnarráðsins (Policy Profession Board).

Hvað er skemmtilegast við starf þitt: Fjölbreytileiki og yfirsýn. Honum finnst gaman að vinna með ferla, strategíur og game theory óháð innihaldi. Einnig er spennandi að koma að vinnu við undirbúning laga um opinber fjármál.

Hvernig nýtast stjórnsýslufræðin þér í starfi? Nám í alþjóðlegri stefnumótun og greiningu felur í sér stúdíu á stjórnkerfum og skipulagsheildum (macro) sem nýtist mjög vel í starfi. Einnig hefur hann kennt alþjóðlega stefnumótun og greiningu í Háskóla Íslands og í tengslum við háskólasamfélagið sem hefur komið sér vel í starfi.

Helstu áhugamál: Héðinn eyðir miklum tíma í náttúrunni, nýtur þess að horfa á tré og veiða fisk. Hann hefur einnig gaman af íþróttum t.d. körfubolta. Héðinn stundar skapandi skrif, bæði kvæði og prósa og hefur gaman að listum.

Héðinn setti á svið viðburðinn Hamingjuna og Úlfinn í Salnum í Kópavogi ásamt tónlistarmanninum og vini sínum Jónasi Sigurðssyni. Jónas og Héðinn kynntust í Danmörku árið 2003 þegar Héðinn var að vinna hjá WHO og Jónas hjá Microsoft. Bók Héðins „Vertu úlfur“ var gefin út í lok mars 2015 af Forlaginu. Héðinn hafði áður verið með fyrirlestra og uppistand um lífið og hamingjuna og Jónas hafði verið að syngja um svipaða hluti. Ákváðu þeir því að leiða saman hesta sína og úr varð Hamingjan og Úlfurinn.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun: „Sæðisfruma gærdagsins er lík morgundagsins“ (Markús Árelíus)