Mánaðarskipt færslusafn fyrir: mars 2015

Breytingar á Stjórnarráði Íslands. Umsögn til Alþingis.

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.).

Félag stjórnsýslufræðinga er andvígt því að endurvekja almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnanna sem undir hann heyra, en slík lagaheimild er afturhvarf til fyrri tíma sem felld var niður við endurskoðun laganna árið 2011. Öfugt við það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið voru ríkar ástæður til niðurfellingar ákvæðisins, líkt og greint verður frá hér á eftir.

Fyrir það fyrsta telur félagið að fyrst og fremst þurfi að byggja á málefnalegum röksemdum við ákvörðun um staðsetningu ríkisstofnana og útibúa þeirra. Ákvarðanir er varða aðsetur stofnana flokkast undir stjórnvaldsákvarðanir og því þurfa þær einnig að byggja á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Umræða um framtíðarstaðsetningu stofnana verður jafnframt að taka mið af langtíma sjónarmiðum og vera á forsendum vandaðrar og skilvirkrar stjórnsýslu.

Undanfarin ár hefur gagnrýni komið fram þess efnis að mikilvægar ákvarðanir hafi í aðdraganda hrunsins verið teknar af fáum aðilum og að hér hafi ríkt meirihlutaræði eða ráðherraræði á kostnað nauðsynlegs samtals við þjóðina og hagsmunaaðila. Leiðin út úr þeirri tortryggni og ósætti sem einkennt hefur íslenskt samfélag undanfarin ár, er að ákvarðanir ráðamanna stuðli að aukinni sátt og samvinnu meðal þjóðarinnar.

Félag stjórnsýslufræðinga er hlynnt þeim breytingum sem koma fram í lögum um Stjórnarráð Íslands og fela í sér aukinn sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að haga starfseminni eftir þörfum og fyrirliggjandi verkefnum hverju sinni. Félagið telur jafnfram að aukin upplýsingagjöf sé til hins betra og stuðli að faglegri stjórnsýslu innan Stjórnarráðsins.

Virðingarfyllst,

F.h. Félags stjórnsýslufræðinga.

 

 

______________________

Elvar Örn Arason

Formaður Félags stjórnsýslufræðinga