Mánaðarskipt færslusafn fyrir: október 2014

Lekamálið í innanríkisráðuneytinu: Hvaða lærdóm má draga af málinu?

Fimmtudaginn 6. nóvember boðar Félag stjórnsýslufræðinga til hádegisverðarfundar þar sem rætt verður um þann lærdóm sem hægt er að draga af lekamálinu svokallaða í innanríkisráðuneytinu. Fundurinn verður haldinn í Víkinni Sjóminjasafninu, Grandagarði 8,  kl. 12.00-13.30.

Hér á landi tíðkast meira ráðherraræði en í sumum nágrannalöndum okkar og hafa ráðherrar mikið sjálfræði án þess að pólitísk ábyrgð sé alltaf í samræmi við völd og stangast pólitísk menning eða hefðir jafnvel á við lagarammann.

Á fundinum flytur Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir lektor í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands fræðilegt erindi um lekamálið og Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fjalla um málið út frá sjónarhóli stjórnmálanna. Skoðað verður hvernig lagaramminn, pólítískar hefðir og menning hér á landi samræmast því sem telja má til góðrar og vandaðrar stjórnsýslu og hvernig æskilegt væri að samskiptum ráðherra ráðuneytis og undirstofnana sé háttað þegar slík mál koma upp. Er ef til vill kerfislægur vandi til staðar sem á rætur sínar að rekja til pólitískrar menningar og hefða hér á landi?

Boðið verður upp á matarmikla fiskisúpu, brauð og pestó fyrir 1.790 krónur. Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru beðnir um að skrá sig á netfangið stjorn@stjornsysla.is fyrir miðnætti miðvikudaginn 5. nóvember. Greitt er á staðnum en í þeim tilvikum sem vinnustaður greiðir fyrir fundargest er viðkomandi gestur beðinn um að koma með beiðni þess efnis.

 Dagskrá:

Fundarstjóri:
Fjalar Sigurðarson, almannatengill.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við Stjórnmálafræðideild HÍ.

Fyrirspurnir og almennar umræður.

15% afsláttur á námskeiði – Sáttamiðlun fyrir stjórnendur

imagesSáttamiðlun fyrir stjórnendur á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands. 15% afsláttur fyrir félaga í Félagi stjórnsýslufræðinga.

Á námskeiðinu verður farið yfir grunnatriði sáttamiðlunar og hvernig hún getur nýst við lausn ágreinings á vinnustað. Farið verður yfir helstu þætti sáttamiðlunar og hvernig byggja má upp jákvætt og farsælt ferli við lausn ágreiningsmála. Þá verður vikið að árangursríkum aðferðum við að koma á framfæri óhagstæðum skilaboðum til starfsmanna.

Á námskeiðinu er fjallað um:
• Ferli sáttamiðlunar og þær kröfur sem gerðar eru til sáttamiðlara í störfum sínum.
• Hvernig hægt er að bæta samskipti á milli deiluaðila.
• Árangursríkar aðferðir við upplýsingaöflun.
• Grunnatriði í samningatækni og beitingu hennar í sáttamiðlun.

Ávinningur þinn:
• Aukin færni í mannlegum samskiptum.
• Beiting skapandi hugsunar við úrlausn ágreiningsmála.
• Hæfni til að greina raunverulega ástæðu deilumála.
• Læra hvernig beita eigi virkri hlustun við úrlausn ágreiningsefna.
• Læra hvernig beita megi spurningatækni til að öðlast skilning á eðli ágreinings.

Fyrir hverja:
Námskeiðið er fyrir stjórnendur sem vilja öðlast færni í leysa úr ágreiningsmálum á vinnustað.

Nánari upplýsingar hér:

Sáttamiðlun fyrir stjórnendur