Mánaðarskipt færslusafn fyrir: apríl 2014

Hádegisfundur 28. apríl um breytt stjórnskipulag á sviði félagsþjónustu og barnaverndar

image_preview

Hádegisfundur 28. apríl um breytt stjórnskipulag á sviði félagsþjónustu og barnaverndar

Félag stjórnsýslufræðinga efnir til hádegisfundar um mögulegar breytingar á sviði félagsþjónustu og barnaverndar, mánudaginn 28. apríl kl 11:50-13:00 á veitingastaðnum Höfnin, Geirsgötu 7.

Félagsmálaráðherra skoðar möguleika á stofnun nýrrar stjórnsýslustofnunar sem myndi sinna verkefnum ríkisins á sviði félagsmála og barnaverndar. Slík stofnun myndi hafa í sinni könnu ýmis stjórnsýsluverkefni á sviði félagsþjónustu, þar með talin þjónusta við fatlað fólk og innflytjendur auk  barnaverndar. Auk þess myndi stofnunin hafa eftirlit með gæðum og öryggi í félagsþjónustu og barnavernd. Markmið slíkrar stofnunar væri að bæta stuðning ríkisins við sveitarfélögin í þeim tilgangi að efla þjónustu þeirra og auka skilvirkni og bæta ferla í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Á fundinum munu þær Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands og Hjördís Árnadóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og félagssviðs Reykjanesbæjar halda erindi.

Sigurbjörg mun fjalla um hugsanleg verkefni og kerfislægt hlutverk stofnunarinnar og beina athyglinni að ávinningi og annmörkum í ljósi stjórnsýslulegrar stöðu slíkrar stofnunar. Í erindi sínu greinir Hjördís frá sínu sjónarhorni varðandi slíka stofnun. Til dæmis hvort mögulega megi ná fram ofangreindum markmiðum og hvaða leiðir og uppbygging væru heppilegastar í þeim efnum. Gert er ráð fyrir umræðum í lok fundar.

Fundarstjóri verður Ingibjörg Broddadóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti.

Þátttökugjald er 1.950 krónur og greiðist það á staðnum. Innifalið er léttur en ljúffengur hádegisverður. Óski aðilar eftir því að stofnun greiði er viðkomandi beðinn um að hafa með sér beiðni.

Nauðsynlegt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið stjornsysla@stjornsysla.is eigi síðar en föstudaginn 25. apríl. Fram þarf að koma fullt nafn og vinnustaður ef við á.