Lög félagsins

Höfundur: Dóra Magnúsdóttir þann 

Lög Félags stjórnsýslufræðinga

   1. gr.  Nafn og aðsetur

Félagið heitir Félag stjórnsýslufræðinga og hefur aðsetur sitt í Reykjavík.

   2. gr.  Markmið

Markmið félagsins eru:

1. Að stuðla að faglegri og skilvirkri stjórnsýslu.

2. Að stuðla að fræðslu og endurmenntun fyrir félagsmenn.

3. Að kynna menntun félagsmanna og efla ímynd hennar.

4. Að efla kynni og tengsl félagsmanna.

   3. gr.  Aðild

Félagsmaður getur hver sá orðið, sem lokið hefur meistaraprófi frá viðurkenndum háskóla í stjórnsýslufræðum. Nemendur í meistaranámi í stjórnsýslufræðum geta verið aukafélagar þar til þeir ljúka námi. Aukafélagar hafa rétt til setu á almennum félagsfundum en eru án atkvæðisréttar.

Stjórn félagsins tekur ákvörðun um inntöku nýrra félagsmanna.

   4. gr.  Heiðursfélagar

Stjórn félagsins getur tilnefnt þann sem félagið vill sýna sérstaka virðingu, heiðursfélaga og gert um það tillögu til aðalfundar. Tillagan telst samþykkt fái hún atkvæði meiri hluta atkvæðisbærra fundarmanna. Félagsmenn geta komið með tillögu að tilnefningu til stjórnar.

   5. gr.  Úrsögn

Úrsögn úr félaginu skal fara fram með skriflegri tilkynningu til stjórnar.

   6. gr.  Brottvikning

Stjórn félagsins getur vikið manni úr félaginu, ef henni þykja efni standa til, en borið getur hann mál sitt undir almennan félagsfund.

   7. gr.  Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Skal hann haldinn ekki síðar en í maí ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með bréfi eða tölvupósti með 7 daga fyrirvara hið skemmsta. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og ræður afl atkvæða úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum. Atkvæðisrétt hafa félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið.

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári

2. Ársreikningur félagsins

3. Ákvörðun félagsgjalds

4. Lagabreytingar.

5. Kosning stjórnar.

6. Kosning endurskoðenda.

7. Önnur mál.

   8. gr.  Kosning og skipan stjórnar

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Kosið er til eins árs í senn. Formaður er kosinn sérstaklega. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað.

   9. gr.  Kosning endurskoðanda

Á aðalfundi skal kjósa tvo endurskoðendur og skal kosning fara fram skriflega, sé þess óskað.

   10. gr.  Hlutverk stjórnar

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Félagsgjöld skulu greidd eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Gerðir stjórnarinnar skulu bókaðar.

   11. gr.  Reikningsár

Reikningsár félagsins er frá 1. apríl til 31. mars. Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við hlutverk félagsins, sbr. 2.gr.

   12. gr.  Lagabreytingar

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins og skal í fundarboði geta þeirra breytinga sem bera á upp. Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga þarf 2/3 greiddra atkvæða.

   13. gr.  Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta og renna þá eignir þess til Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

 

Samþykkt á aðalfundi Félags stjórnsýslufræðinga þann 29. maí 2012.

(Hér má sjá lög félagsins frá 2007-2012 og breytingartillögur fyrir aðalfundinn 2012)