
Hádegisfundur á vegum Félags stjórnsýslufræðinga verður haldinn 8. október kl. 12.00 – 13.30 á Kex hosteli, Skúlagötu 28.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, hafa lagt fram frumvarp um breytingu á lögunum sem mun auðvelda forstöðumönnum opinberra stofnanna að segja upp starfsmönnum. Þetta mun færa opinbera vinnumarkaðinn nær hinum almenna vinnumarkaði. Vigdís segir að breytingarnar muni leiða til betri ríkisreksturs og auðvelda forstöðumönnum stofnana að bregðast við hagræðingarkröfu.
Starfsmannalögin (nr. 70/1996) kveða á um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt lögunum njóta ríkisstarfsmenn verndar í starfi umfram launþega á almennum vinnumarkaði. Rökin fyrir því að ríkisstarfsmenn eigi að njóta sérstakrar verndar í starfi eru einkum þau að nauðsynlegt sé að opinber starfsmaður geti sinnt starfsskyldum sínum án þess að óttast að valdhafar beiti hann þrýstingi, t.d með því að hóta, beint eða óbeint, að segja honum upp störfum.
Hádegisverðarfundi Félags stjórnsýslufræðinga er ætlað að bregða ljósi á þetta mál. Vigdís Hauksdóttir mun skýra frá breytingartillögunni og formaður Bandalags háskólamanna, Þórunn Sveinbjarnardóttir, mun skýra frá afstöðu BHM en innan þess starfa margir starfsmenn í opinberri þjónustu.
Boðið verður upp á súpu dagsins og brauð á 1.700 kr. Fundurinn hefst kl. 12 og stendur til 13.30. Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru beðnir um að skrá sig á netfangið stjorn@stjornsysla.is fyrir miðnætti miðvikudaginn 7. október. Greitt er fyrir mat á staðnum.
Fundarstjóri verður Gestur Páll Reynisson, stjórnarmaður í Félagi stjórnsýslufræðinga.
Frekari upplýsingar um fundinn veitir Elvar Örn Arason í síma 894 2409 eða í gegnum tölvupóst elvaroa@gmail.com.