Utanríkismálanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögnum um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, sem fjallar um að slíta aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.
Félag stjórnsýslufræðinga skrifaði að þessu tilefni umsögn um til Alþingis. Umsögn félagssins er eftirfarandi:
Efni: 340. mál, þingsályktunartillaga 143: Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka
Félag stjórnsýslufræðinga tekur ekki afstöðu til þess hvort að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins.
Frá því að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu hefur mikið starf verið unnið innan stjórnsýslunnar í tengslum við umsóknarferlið. Áður en samningaviðræðurnar hófust var unnið að því að bera saman regluverk Evrópusambandsins við íslenska löggjöf og greina hvað bar á milli. Í kjölfarið hófust hinar eiginlegu samningaviðræður sem voru langt á veg komnar þegar hlé var gert á viðræðunum.
Árið 2012 hélt Félag stjórnsýslufræðinga málþing, þar sem varpað var ljósi á áhrif Evrópusamstarfsins á íslenska stjórnsýslu í fortíð og nútíð. Á málþinginu var leitað svara við því hvernig EES-samningurinn og umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu hefur leitt til breytinga á áherslum og verkefnum íslenskrar stjórnsýslu.
Niðurstaða málþings félagsins var að Evrópusamruninn hafi haft afgerandi áhrif á þróun íslenskrar stjórnsýslu og íslenskra stofnananna á þeim tveimur áratugum sem liðnir eru frá að Ísland gerðist þátttakandi að evrópska efnahagssvæðinu með aðild sinni að EES-samningnum. Á málþinginu kom fram að umsóknarferlið sjálft og þátttaka stofnanna í margskonar verkefnum því tengdu myndi efla getu þeirra til að fást við fjölbreytileg verkefni í framtíðinni.
Félag stjórnsýslufræðinga telur að það mikla starf sem unnið hefur verið innan stjórnsýslunnar í tengslum við aðildarviðræðurnar muni fara í súginn verði aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins slitið á þessum tímapunkti. Það er mat stjórnarinnar að þátttaka íslenskra stofnanna í verkefnum tengdum aðildarviðræðunum muni efla þær og auka getu þeirra til að fást við krefjandi verkefni sem tengjast aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu.
Virðingarfyllst,
F.h. Félags stjórnsýslufræðinga
______________________
Rósa G. Bergþórsdóttir
Formaður Félags stjórnsýslufræðinga