Allar færslur eftir Elvar Arason

Viðtal við stefnumótunarsérfræðinginn Héðinn Unnsteinsson

Hedinn_halvbild

Héðinn Unnsteinsson starfar sem stefnumótunarsérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu.

Héðinn lauk íþróttakennaragráðu árið 1996 og B.Ed. í kennslufræðum frá Háskóla Íslands 1999. Hann lauk MS í alþjóðlegri stefnumótun og greiningu (International Public Policy Analysis) með áherslu á heilbrigðis- og félagsmál árið 2003 frá Háskólanum í Bath. Framhaldsnámið í Bath fannst honum mjög vítt nám þar sem það fjallaði almennt um stefnuferla og stjórnmál. Bath var mjög góður skóli og þar kenndu góðir kennarar. Notuð voru raunhæf dæmi af vettvangi Evrópu og alþjóðlegur hópur nemenda var í náminu sem gaf víða sýn á námið.

Fyrri störf: Héðinn starfaði meðal annars sem verkefnisstjóri verkefnisins Geðrækt. Hann var í starfsnámi hjá Alþjóða heilbrigðisstofnunninni og starfaði þar eftir útskrift úr framhaldsnáminu. Fyrst starfaði hann sem ráðgjafi í Genf. Að því loknu starfaði hann á Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Danmörku sem Technical Officer með áherslu á geðheilbrigðisstefnu. Þessi ár einkenndust af miklum ferðalögum, um 40-45 ferðir á ári. Verkefnin fólust í því að skrifa yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun fyrir heilbrigðisráðherra í Evrópu sem var skrifað undir á ráðherrafundi allra ráðherranna 2005 í Helsinki. Samhliða störfum hjá WHO starfaði hann einnig sem stundakennari í Háskólanum í Reykjavík. Eftir það tók hann til starfa hjá Heilbrigðisráðuneytinu við stefnumótun í lýðheilsu- og geðheilbrigðismálum.  Í dag starfar Héðinn sem stefnumótunarsérfræðingur hjá Forsætisráðuneytinu. Fyrst fólst starf hans í stefnumörkuninni Ísland 2020 og samhæfingu stefnu og áætlana yfir allt Stjórnarráðið. Í dag er hans hlutverk að stýra stefnuráði Stjórnarráðsins (Policy Profession Board).

Hvað er skemmtilegast við starf þitt: Fjölbreytileiki og yfirsýn. Honum finnst gaman að vinna með ferla, strategíur og game theory óháð innihaldi. Einnig er spennandi að koma að vinnu við undirbúning laga um opinber fjármál.

Hvernig nýtast stjórnsýslufræðin þér í starfi? Nám í alþjóðlegri stefnumótun og greiningu felur í sér stúdíu á stjórnkerfum og skipulagsheildum (macro) sem nýtist mjög vel í starfi. Einnig hefur hann kennt alþjóðlega stefnumótun og greiningu í Háskóla Íslands og í tengslum við háskólasamfélagið sem hefur komið sér vel í starfi.

Helstu áhugamál: Héðinn eyðir miklum tíma í náttúrunni, nýtur þess að horfa á tré og veiða fisk. Hann hefur einnig gaman af íþróttum t.d. körfubolta. Héðinn stundar skapandi skrif, bæði kvæði og prósa og hefur gaman að listum.

Héðinn setti á svið viðburðinn Hamingjuna og Úlfinn í Salnum í Kópavogi ásamt tónlistarmanninum og vini sínum Jónasi Sigurðssyni. Jónas og Héðinn kynntust í Danmörku árið 2003 þegar Héðinn var að vinna hjá WHO og Jónas hjá Microsoft. Bók Héðins „Vertu úlfur“ var gefin út í lok mars 2015 af Forlaginu. Héðinn hafði áður verið með fyrirlestra og uppistand um lífið og hamingjuna og Jónas hafði verið að syngja um svipaða hluti. Ákváðu þeir því að leiða saman hesta sína og úr varð Hamingjan og Úlfurinn.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun: „Sæðisfruma gærdagsins er lík morgundagsins“ (Markús Árelíus)

Vel sóttur fundur um starfsmannamál ríkisins á Kex hosteli

fr_20151008_024280

Fundur Félags stjórnsýslufræðinga á Kex hosteli fjallaði um starfslok opinberra starfsmanna. Fundurinn var fjölmennur en um 70 manns sóttu fundinn.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar,  telur að minnka eigi muninn á opinbera og almenna markaðnum. Vigdís og Guðlaugur Þór Þórðarson hafa lagt fram frumvarp sem auðveldar forstöðumönnum ríkisstofnana að ráða og segja upp starfsfólki, en opinberir starfsmenn njóta almennt meiri verndar en þeir sem á almennum vinnumarkaði starfa. Markmið frumvarpsins er að auðvelda forstöðumönnum ríkisstofnana að ráða og reka starfsmenn en Vigdís segir hendur þeirra bundnar. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, óskaði eftir því á fundinum að Vigdís afturkalli frumvarpið og segir það missa marks. Þórunn óskar eftir því að breytingar verði í staðinn gerðar á lögum um opinbera starfsmenn.

Sjá umfjöllum Spegilsins um fundinn.

Uppsagnir og tilfærsla opinberra starfsmanna

Thorunn-Sveinbjarnardottir-(9206) vigdishauks

Hádegisfundur á vegum Félags stjórnsýslufræðinga verður haldinn 8. október kl. 12.00 – 13.30 á Kex hosteli, Skúlagötu 28.

Vig­dís Hauks­dótt­ir, formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþing­is, og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, vara­formaður nefnd­ar­inn­ar, hafa lagt fram frum­varp um breyt­ingu á ­lög­unum sem mun auðvelda forstöðumönnum opinberra stofnanna að segja upp starfsmönnum. Þetta mun færa opinbera vinnumarkaðinn nær hinum almenna vinnumarkaði. Vig­dís seg­ir að breytingarnar muni leiða til betri rík­is­rekst­urs og auðvelda for­stöðumönn­um stofn­ana að bregðast við hagræðing­ar­kröfu.

Starfsmannalögin (nr. 70/1996) kveða á um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt lögunum njóta ríkisstarfsmenn verndar í starfi umfram launþega á almennum vinnumarkaði. Rökin fyrir því að ríkisstarfsmenn eigi að njóta sérstakrar verndar í starfi eru einkum þau að nauðsynlegt sé að opinber starfsmaður geti sinnt starfsskyldum sínum án þess að óttast að valdhafar beiti hann þrýstingi, t.d með því að hóta, beint eða óbeint, að segja honum upp störfum.

Hádegisverðarfundi Félags stjórnsýslufræðinga er ætlað að bregða ljósi á þetta mál. Vigdís Hauksdóttir mun skýra frá breytingartillögunni og formaður Bandalags háskólamanna, Þórunn Sveinbjarnardóttir, mun skýra frá afstöðu BHM en innan þess starfa margir starfsmenn í opinberri þjónustu.

Boðið verður upp á súpu dagsins og brauð á 1.700 kr. Fundurinn hefst kl. 12 og stendur til 13.30. Þeir sem hyggjast sækja fundinn eru beðnir um að skrá sig á netfangið stjorn@stjornsysla.is fyrir miðnætti miðvikudaginn 7. október. Greitt er fyrir mat á staðnum.

Fundarstjóri verður Gestur Páll Reynisson, stjórnarmaður í Félagi stjórnsýslufræðinga.

Frekari upplýsingar um fundinn veitir Elvar Örn Arason í síma 894 2409 eða í gegnum tölvupóst elvaroa@gmail.com.

Aðalfundur í Odda og samdrykkja

url

Aðalfundur Félags stjórnsýslufræðinga verður haldinn miðvikudaginn 13. maí kl. 16.00 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands. Áður en gengið verður til hefðbundinna aðalfundarstarfa heldur  Gestur Páll Reynisson, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, erindi sem ber titilinn „Hverjir verða aðstoðarmenn ráðherra?“ Gestur mun fjalla um bakgrunn aðstoðarmanna ráðherra frá 1971 til 2014 og hvernig sá bakgrunnur hefur breyst í gegnum tíðina.
Dagskrá fundar:

  1. Setning fundar, kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári
  3. Ársreikningur félagsins
  4. Ákvörðun félagsgjalds
  5. Kosning stjórnar
  6. Kosning endurskoðenda
  7. Önnur mál.

Samdrykkja í Stúdentakjallaranum að loknum aðalfundi kl. 17.30

Samdrykkja stjórnsýslufræðinga og nemenda verður haldin eftir aðalfundinn og hefst 17.30. Mikilvægur þáttur í MPA náminu er tengslanet nemenda, kennara námsins og stjórnsýslufræðinga. Að loknum aðalfundi efnir félagið til samkomu í Stúdentakjallaranum. Þarna er kjörið tækifæri fyrir núverandi nemendur og útskrifaða að hittast og ræða málin. Boðið verður upp á léttar veitingar og bjór. Samkoman í Stúdentakjallaranum hefst kl. 17.30 og eru þeir sem ekki hafa tök á að mæta á aðalfundinn velkomnir í Stúdentakjallarann að fundi loknum.

 

 

Breytingar á Stjórnarráði Íslands. Umsögn til Alþingis.

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum (skipulag ráðuneyta og stofnana o.fl.).

Félag stjórnsýslufræðinga er andvígt því að endurvekja almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnanna sem undir hann heyra, en slík lagaheimild er afturhvarf til fyrri tíma sem felld var niður við endurskoðun laganna árið 2011. Öfugt við það sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið voru ríkar ástæður til niðurfellingar ákvæðisins, líkt og greint verður frá hér á eftir.

Fyrir það fyrsta telur félagið að fyrst og fremst þurfi að byggja á málefnalegum röksemdum við ákvörðun um staðsetningu ríkisstofnana og útibúa þeirra. Ákvarðanir er varða aðsetur stofnana flokkast undir stjórnvaldsákvarðanir og því þurfa þær einnig að byggja á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Umræða um framtíðarstaðsetningu stofnana verður jafnframt að taka mið af langtíma sjónarmiðum og vera á forsendum vandaðrar og skilvirkrar stjórnsýslu.

Undanfarin ár hefur gagnrýni komið fram þess efnis að mikilvægar ákvarðanir hafi í aðdraganda hrunsins verið teknar af fáum aðilum og að hér hafi ríkt meirihlutaræði eða ráðherraræði á kostnað nauðsynlegs samtals við þjóðina og hagsmunaaðila. Leiðin út úr þeirri tortryggni og ósætti sem einkennt hefur íslenskt samfélag undanfarin ár, er að ákvarðanir ráðamanna stuðli að aukinni sátt og samvinnu meðal þjóðarinnar.

Félag stjórnsýslufræðinga er hlynnt þeim breytingum sem koma fram í lögum um Stjórnarráð Íslands og fela í sér aukinn sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að haga starfseminni eftir þörfum og fyrirliggjandi verkefnum hverju sinni. Félagið telur jafnfram að aukin upplýsingagjöf sé til hins betra og stuðli að faglegri stjórnsýslu innan Stjórnarráðsins.

Virðingarfyllst,

F.h. Félags stjórnsýslufræðinga.

 

 

______________________

Elvar Örn Arason

Formaður Félags stjórnsýslufræðinga